Í Núpi leggjum við EFI-2 málþroskaskimun fyrir öll börn á fjórða ári. EFI–2 er ætlað að finna þau börn sem víkja frá meðalfærni jafnaldra í málskilningi og máltjáningu. Því fyrr sem þessi börn finnast þeim mun fyrr er hægt að beita aðferðum snemmtækrar íhlutunar í vinnu með þeim. Börn með frávik frá eðlilegum málþroska þurfa alls ekki að vera sein í hreyfiþroska, félagsþroska og vitsmunaþroska, því þarf að meta málþroska sérstaklega.

EFI-2 reynir bæði á málskilning og máltjáningu. Með málskilningsþætti er kannaður t.d. skilningur á stærða- og fjöldahugtökum, litaheitum, óyrtum orðaforða og yfirhugtökum. Einnig skilningur á neitun í setningu og skilning á setningum sem tengjast tímaröð. Staða vinnsluminnis er einnig kannað. Með máltjáningarþætti er kannaður almennur virkur orðaforði, rétt notkun talna- og litaheita, setninga- og beygingarmyndun (nútíð, þátíð, eintala, fleirtala), rökvísi og samhengi í tjáskiptum.

Allir þættir EFI–2 reyna jafnframt á einbeitingu og félagslega færni í samskiptum en þessir þættir geta haft áhrif á niðurstöður.

EFI-2 gefur markvissar niðurstöður til að meta betur en áður var hægt hvort þörf er á frekari greiningu fagaðila. Aðeins þeir leikskólakennarar eða sérhæft starfsfólk leikskóla sem sótt hefur námskeið í fyrirlögn og túlkun EFI–2 málþroskaskimunar hafa leyfi til að nota EFI-2.