Samvinna foreldra og leikskóla

Góð samvinna foreldra og leikskóla er forsenda fyrir árangursríkri dvöl í leikskólanum og góðri líðan barnsins. Samvinna foreldra og leikskóla þarf að byggjast á gagnkvæmri virðingu og opnum samskiptum. Við hvetjum báða foreldra til að taka þátt í samstarfinu. Foreldrar eru ávallt velkomnir í leikskólann og til að taka þátt í starfinu. Hafið samband við deildarstjóra ef þið óskið eftir að dvelja í leikskólanum.
Foreldrastefnu Núps má finna hér

 

Foreldraviðtöl

Tilgangur foreldraviðtala er að veita gagnkvæmar upplýsingar um barnið, líðan þess og framgang. Foreldraviðtöl við deildarstjóra eru að jafnaði tvö á ári, annað á haustönn og hitt á vorönn. Foreldrum er auk þess alltaf velkomið að biðja um foreldraviðtal við deildarstjóra eða leikskólastjóra. 

 

Foreldrafundir

Tilgangur foreldrafunda er að miðla upplýsingum um uppeldisstarfið í leikskólanum. Í byrjun haustannar er vetrarstarfið kynnt fyrir öllum foreldrum. Í október er foreldrafélagið með sinn aðalfund. Kynningarfundur og móttökuviðtal fyrir nýja foreldra er haldin áður en aðlögun að hausti byrjar.

 

Upplýsingatöflur

Upplýsingatöflum leikskólans í fataherbergjum er ætlað að koma á framfæri upplýsingum til foreldra. Foreldrar eru hvattir til að fylgjast vel með upplýsingum á töflunni. Einnig eru tilkynningar um ýmis málefni hengd upp á hurðum deilda, útihurðum og á þurrkskápum í fataherbergjum. 

 

Opið hús 

Leikskólinn býður foreldrum á opið hús í maí ár hvert.
Fyrirkomulag opna hússins er mismunandi og auglýst í fataherbergjum.