Leikskólanám

Í námskrá leikskólans er tekið á fjölmörgum þáttum sem barnið er að tileinka sér og læra í samvinnu og samskiptum við aðra í leikskólanum.

Leikskólanám á að efla alhliða þroska barna, þ.e.a.s. efla mikilvægustu þroskaþætti sem samtvinnast hjá barninu. Þessir meginþættir og samspil þeirra varða líkamsvöxt barna og hreyfifærni, tilfinningalíf, vitsmuni, félagsvitund og félagshæfni, fegurðarskyn og sköpunarhæfni, siðgæði og siðgæðisvitund.

Nám í leik

Leikurinn í allri sinni fjölbreytni er kjarninn í uppeldisstarfi allra leikskóla. Leikskólakennarar þekkja leik barna, þeir virða leikinn, hlúa að honum, gefa honum rými og skipuleggja leikumhverfi barnanna.

Nám í samskiptum    

Hæfni til samskipta er grundvöllur þess að lifa, starfa og leika sér með öðrum í sátt og samlyndi. Leikskólakennarar stuðla að því að öll börn njóti sín í samskiptum og læri að taka tillit til annarra.

Nám í skapandi starfi og skapandi hugsun

Að skynja, skilja og skapa er hæfni sem börn verða að þróa með sér. Allt skipulag og búnaður í leikskólanum á að stuðla að því að vekja forvitni barnanna, frumkvæði, virkni, áhuga, gleði og efla sjálfstæði þeirra. Leikskólakennarar hvetja börnin til að spyrja spurninga og velta fyrir sér lífinu og tilverunni.

Nám í daglegu lífi í leikskóla

Leikskólanám er samþætt nám þar sem barnið er að læra allan tímann við mismunandi aðstæður. Leikskólakennarar nota öll tækifæri sem gefast til að örva nám barnanna, t.d. í matartímum, fataherbergi og á snyrtingu.

Leikurinn er hornsteinn leikskólastarfsins. Hann er kennsluaðferð leikskólakennarans og námsleið barnsins.  Í bernsku er það að leika sér sama og að læra og leita sér þekkingar. Hinn frjálsi og sjálfsprottni leikur er talinn “leikur leikjanna”. Rannsóknir sýna að börn á leikskólaaldri læra mest og best í leik.

Frjálsi leikurinn er stór þáttur í daglegu starfi í leikskólanum, við leggjum áherslu á að gefa honum góðan tíma og að starfsfólkið sé til staðar með börnunum þeim til aðstoðar og sem þátttakendur í leiknum þegar það á við. Í vali eru börnin í frjálsum leik á þeim svæðum sem þau velja sér, börnin eru einnig í frjálsum leik á deildum.

Samskipti í leikskólanum skipta miklu máli. Börnin eru í samskiptum við mörg börn allan daginn, í litlum eða stórum hópum. Börnin eru hvött til að sýna öðrum börnum umburðarlyndi og hjálpsemi. Samvinna, samkennd, tillitssemi og ábyrgðartilfinning eru mikilvægir þætir í félagsþroska barna. Stuðlað er að vináttu, samleik og jákvæðum samskiptum drengja og stúlkna.