Starfsfólk sérkennslu er

Eva Björk Ómarsdóttir Leikskólakennari og sérkennslustjóri 

Ísabella María Markan Leikskólakennari og sérkennslustjóri

Kristín Helga Kristinnsdóttir Þroskaþjálfi 

Jóna Björg Jónsdóttir Leikskólakennari 

Sérkennslustjóri  ber ábyrgð á skipulagningu, framkvæmd og endurmati sérkennslunnar ásamt leikskólastjóra. Sérkennslustjóri er ásamt deildarstjórum ábyrgur fyrir því að gerðar séu áætlanir vegna barnanna sem njóta sérkennslu og að þeim sé framfylgt. Sérkennslustjóri er faglegur umsjónarmaður sérkennslunnar og ber ábyrgð á miðlun upplýsinga milli sérkennslufulltrúa leikskóla og starfsmanna leikskólans. Einnig hefur hann umsjón með uppeldis- og námsgögnum leikskólans sem tengjast sérkennslu.

 

Nám án aðgreinignar - sérkennsla

Leikskóli er fyrir öll börn á leikskólaaldri. Í leikskóla eru börn með mismunandi atgervi og frá ólíkum menningarheimum. Leitast er við að hvert einstakt barn fái viðfangsefni við sitt hæfi. Mikilvægt er að félagsskapur og samskipti barnanna bindi þau vináttuböndum og styrki samkennd þeirra. Í leikskóla er það talinn ávinningur fyrir alla að eiga þar fjölbreytt samfélag.

Börn með fötlun og börn með frávik í þroska fá sérkennslu samkvæmt reglum sem sveitarfélagið setur þar um. Meginreglan er að sérkennslan fari fram í hópnum með öðrum börnum en einnig getur verið um einstaklingsmiðaða kennslu að ræða er það metið í hverju tilfelli fyrir sig. 

 

Markmið með sérkennslu í leikskólanum Núpi er að:

Styðja við barnið þannig að það njóti leikskóladvalar sinnar sem best

Skapa aðstöðu til þess að barnið geti þroskast sem best á eigin hraða

 

Frávik í þroska

Ef grunur vaknar hjá kennurum um að barn víki frá “eðlilegum” þroska á einhverju sviði ber þeim samkvæmt lögum að hlutast til um málið. Þetta á einnig við ef kennari telur að félagslegar aðstæður barns hamli að einhverju leyti þroskamöguleikum þess. Mikilvægt er að markviss íhlutun hefjist strax og grunur vaknar og ekki sé beðið staðfestingar á þroskafráviki. Sérkennslustjóri sem starfar innan leikskólans kemur þar að málum. Í foreldraviðtali er leitað eftir áliti foreldra og rætt um það hvað leikskólinn er að gera til að örva þroska barnsins og hvers vegna. Í samráði við foreldra getur leikskólinn kallað eftir þjónustu sérfræðinga, talkennara, iðjuþjálfa og sálfræðings sem starfa hjá bæjarfélaginu. Viðkomandi sérfræðingur gerir þá formlega athugun á þroska barnsins með viðeigandi þroskaprófi eða matstæki. Niðurstöður athugunar eru ræddar við foreldra og áframhaldandi vinnan með barnið er skilgreind nánar.

Hver einstaklingur er metinn út frá hæfileikum sínum, en ekki því sem hann getur ekki. Öll börn hafa þörf fyrir samneyti við önnur börn, jafnt jafnaldra sína sem eldri og yngri börn. Leikskólinn aðlagar sig eftir mætti að þörfum hvers barns svo það fái notið sín. Þess er sérstaklega gætt að börn sem njóta sérkennslu einangrist ekki frá barnahópnum og að þau njóti eðlilegra félags tengsla. Félagslegur tilgangur dvalarinnar er hornsteinn að okkar mati. Félagsmótunin sem á sér stað, þær fyrirmyndir sem börnin eru hvort öðru og kennsla í daglegri færni s.s. að matast, klæða sig o.fl. er mikilvægur hluti leikskóladvalarinnar.

Einstaklingsnámskrá er gerð í samráði við foreldra fyrir hvert barn sem þarf á íhlutun að halda. Unnið er eftir þeirri áætlun á deildinni sem barnið dvelur á.

Sérkennsla er yfirhugtak, sem notað er til að skilgreina þá aðstoð sem leikskólanum er veitt vegna barna með sérþarfir.   Í leikskólanum er unnið samkvæmt einstaklingsnámskrá barnsins og áhersla lögð á að barnið verði fullgildur meðlimur í leikskólasamfélaginu og að allir kennarar séu virkir þátttakendur í námi þess.

 

Trúnaður og traust

Leikskólinn leggur áherslu á að fullur trúnaður ríki um allar upplýsingar er varða börnin og foreldra þeirra. Hverjum starfsmanni er skylt að gæta þagmælsku um atriði er hann fær vitneskju um í starfi sínu. Allt starfsfólk leikskólans undirritar sérstakt þagnarheit sem helst þó látið sé af starfi. Ef leikskólakennarar telja að líkamlegum og/eða andlegum þörfum barns sé ekki sinnt ber að tilkynna það barnaverndaryfirvöldum Kópavogsbæjar, sbr. 13. gr. laga um málefni barna og ungmenna.