Fjölgreindir byggja á hugmyndafræði Howard Gardner um að hver einstaklingur búi yfir átta greindum sem eru samsettar á einstakan hátt hjá hverjum og einum.

Við nýtum okkur þessa hugmyndafræði í öllu starfi leikskólans. Allir eru einstakir og við þurfum að nýta okkur hæfileika og getu hvers og eins til að efla og styrkja börnin. Með því að horfa á styrkleikana sjáum við það góða sem býr í hverjum og einum. Öll vinna á að miðast að því að við nýtum okkur styrkleika barnanna og leyfa þeim að nálgast viðfangsefnin á sínum forsendum.

 

Greindirnar átta

Rýmisgreind, er hæfileiki til að skynja hið sjónræna og rúmfræðilega umhverfi og hæfileiki til að umskapa þessa skynjun. Einnig næmi fyrir litum, línum, lögun og formi og tengslum þar á milli. Hæfni til að sjá hluti fyrir sér á myndrænan hátt.

Málgreind, er hæfileiki til að hafa áhrif með orðum, bæði munnlega og skriflega. Hæfni til að nýta tungumálið í hagnýtum tilgangi.

Samskiptagreind, er hæfileiki til að skilja og greina skap og tilfinningar annarra. Næmni fyrir svipbrigðum, rödd og látbragði og greina vísbendingar í samskiptum

Tónlistargreind, er hæfileiki til að skynja, meta og skapa tónlist. Næmni fyrir takti, tónhæð og laglínu.

Umhverfisgreind, er hæfileiki til að greina og flokka fjölda tegunda úr jurta- og dýraríkinu. Að búa yfir þekkingu á náttúrunni og umhverfi manneskjunnar s.s. veðráttu, jarðþekkingu, landslagi, mynstrum náttúrunnar og ræktun hverskonar. Næmi fyrir umhverfishljóðum, snertingu, og sjón og bragði af náttúrunni sjálfri. Fyrir þá sem alast upp í þéttbýli getur umhverfisgreind líka verið hæfileikinn til að greina sundur dauða hluti eins og bíla og íþróttaskó

Líkams- og hreyfigreind, er hæfileiki í að nota allan líkamann til að tjá hugmyndir og tilfinningar og leikni til að búa til hluti og nota hluti og áhöld. Hæfni til að beita samhæfingu, fingrafimi, styrk og sveigjanleika.

Rök- og stærðfræðigreind er hæfileiki til að nota tölur og hugsa rökrétt. Næmi fyrir orsök og afleiðingu, flokkun, ályktunum og útreikningum

Sjálfsþekkingargreind er hæfni til sjálfsögunar og lýsir sér m.a. í skýrri sjálfsmynd og þekkingu einstaklingsins á styrk sínum og veikleikum.