Vináttu – verkefni Barnaheilla er forvarnarverkefni gegn einelti fyrir leikskóla. Efnið heitir á frummálinu Fri for mobberi og er þýtt, staðfært, framleitt og gefið út í samstarfi við Red barnet – Save the Children og Mary Fonden í Danmörku. Efnið byggir á ákveðinni hugmyndafræði og gildum sem skulu samofin öllu leikskólastarfinu. Einnig er til efni fyrir fyrstu bekki í grunnskóla. Rannsóknir í Danmörku hafa leitt í ljós góðan árangur af notkun vináttu og þau börn sem eru í skólum þar sem unnið er með efnið sýna meiri samhygð gagnvart hvert öðru.
1. Umburðarlyndi
Að viðurkenna og skilja mikilvægi og gildi fjölbreytileikans og að koma fram við alla aðra af virðingu.
2. Virðing
Að viðurkenna og taka tillit til allra barnanna í hópnum, að vera öllum góður félagi og að virða mismunandi hátterni annarra.
3. Umhyggja
Að sýna öllum börnum áhuga, samkennd, samlíðan og hjálpsemi. Að hafa skilning á stöðu annarra.
4. Hugrekki
Að þora að láta til sín heyra og geta sett sér mörk. Að vera hugrakkur og góður félagi sem bregst við óréttlæti.
Í Núpi er unnið með verkefnið með þremur elstu árgöngunum en í vinnslu er efni sem hentar yngri börnum.
Blær er táknmynd verkefnisins og fá öll börnin sem taka þátt í verkefninu lítinn Blæ sem þau vinna með inni á deildum. Börnin hafa útbúið fyrir hann lítil heimili, sum fatnað og fleira skemmtilegt Blær kom til okkar frá Ástralíu og við fundum hann hér ofan við leikskólann þar sem hann hafði fallið af himnum ofan með fallhlíð. Hér má sjá smá myndband af því.
Fimm hollráð til foreldra
- Sýndu barninu þínu stuðning í að umgangast sem flest börn í leikskólanum.
- Talaðu aldrei illa um önnur börn í leikskólanum, foreldra þeirra né starfsmenn leikskólans.
- Komdu á sameiginlegum hefðum í leikskólanum varðandi afmælisdaga barnanna.
- Hvettu barnið þitt til þess að segja frá og til þess að styðja félaga sína og verja.
- Hlustaðu á aðra foreldra af jákvæðni þegar þeir tala um vandamál barna sinna.